Roxana Crisólogo Correa

Foto: Joanna Lindén-Montés

[Español]   [Svenska]

Translations: Margrét Lóa Jónsdóttir


Þetta tregafulla og gráa farg af sandi
breytir raddblæ mínum
í fyrirbæri sem er alltof hrjúft
til að geta fallið strákum í geð
árangurslaust hef ég reynt að útskýra fyrir þeim
að orð kæfi
að innra með mér fyrirfinnist ekki nokkur maður sem sé
heltekinn af því að sjá veruleikann frá nýju sjónarhorni

Nú kemur það í minn hlut að leggja lokahönd á landslagið
fela í mynstri fíngerðustu krónublaða
magnaða landafræði
mikilfenglega náttúru
snævi þakta tinda
og Pepsiauglýsingu
sem slekkur þorsta minn

Túristarútur leita hinnar týndu borgar í týndum höttum
sem vernda þá fyrir sólinni
og þeim sjálfum

Verndar það mig frá því að sjá þá
eða get ég skriðið inn í hópinn
inn í þeirra drapplituðu vandamál
meðan þeir leita sér að skyndibita
til að upplifa sem fyrst þá áskorun sem felst í því að koma hingað

Án þess svo mikið sem að svitna?
Kemur það í minn hlut
leiðsögumannsins
að útskýra fyrir þeim
enn eitt kennileitið á kortinu þeirra?

Ég sel þeim ævintýri
ellilífeyrisþegar verða þakklátir
ég býð þeim upp á harmsögu
og hinir allra yngstu vilja meira blóð
Þetta land
sem ég hluta nostursamlega niður
og ofskreyti með skýjum úr ryki

Þetta land
sem fær mig til að tala um laust grjót
sem fólk fleygir frá sér þegar það smám saman nálgast
torgið með öllum sínum veggspjöldum

Mér nægir að geta komið þeim í skilning um
að þetta sé ekki spurning um sjúkdóm
heldur einfaldlega rödd mína
brennivínsráma
brennheita.


Hakaniemen torg

Ég mun sækja í sólina, finna mig í þessu vanalega, kannast við sjálfa mig í hinum atvinnulausu sem hafa ekki ráð á öðru en kaffi. Hér er ég á ný, að reyna með hjálp handa minna, að lýsa í fáeinum orðum landslagi eyðimerkur sem mér stundum finnst einsog aðeins mér sé kunnugt um. Stór og fátækleg eyðimörk við hafið. Öldur án litbrigða sem flæða að og frá, draga með sér íðilfagra fugla og stöku sinnum rusl. Borg sem snýr baki að Andesfjöllum sem með orðum einmana ellilífeyrisþega hljómar líkt og óraunverulegt og stórbrotið Macondo. En hvorki birtan né finnskan mín dugar til að skýra alla þá óreiðu og glundroða, þann hrærigraut ólíkra tilfinninga, fjarlægðina og það bræðrastríð sem í Perú er.

Helsinki breytist í borg úr gleri, viðkvæma, brothætta, sem ég svíf um. Helsinki hrein einsog sjúkrastofa, óspillt dama sem ber höfuðið hátt, lætur mig fá vatn í munninn. Ég sakna gömlu náunganna sem skemmtu okkur á brennheitum síðkvöldum hjá Sambandi málmiðnaðarmanna. Þeir skrifa endurminningar sínar, en ég er hálfnuð með ferðalag sem ég hef enn ekki hugmynd um hvort sé lokið. Á ný breytist dagurinn í strák með lambhúshettu sem smeygir hármakkanum ofan í leðurfrakkann sinn. Ég flý undan óviðfelldnum símokandi snjóplógum sem leita uppi hrikalegustu hálkubletti gangstéttanna og dreifa smásteinum til að koma í veg fyrir að gamlingjum og sveimhugum einsog mér skriki fótur. Að lokum verður borgin að skissu. Eitthvað af veggjakrotinu sem ég skildi eftir í heimaborg minni ætti að eiga hér einn vegg.

Ég skrifa um það sem þögnin húðflúrar í hugskot mitt. Skrifa um það sem þungarokkið frá útvarpi nágranna míns, sem ég aldrei kem til með að sjá framan í, skilur eftir sig fljótandi í andrúmsloftinu. Ég kannast á ný við bank gömlu konunnar sem höndlar ekki hávaðann sem tvær Suður-amerískar konur gefa frá sér þegar við göngum um og hlæjum.

Ég fer inn í skóginn þeirra líkt og inn í meltingarveg sem hefur illan bifur á súru bragði. Fer inn í skóginn án þess að vera í gönguskóm. Tíni jarðarber án þess að nota vörn fyrir moskítóflugum. Geng á hælaskóm í snjónum í von um að komast sem lengst héðan. Skógurinn er og verður mér ævinlega, hulin rönguskó. Tog verður mér ævinlega hlæjum.a um það sem þungarokkið fr     áðgáta. Af og til ímynda ég mér að ég tíni sveppi í hafi af björkum sem þyrstir í regn. Aðra stundina tíni ég ber með hópi af eistneskum stelpum sem aldrei myndu rugla saman eitruðum berjum og ætum. En allt er þetta blekking, þar sem ég hef aldrei tínt sveppi og því síður vogað mér að tína ber. Mótspyrna mín hefur reist sér múra í borginni.

Jafnvel landslagið virðist mér ekki vera annað en dularfull röð af skuggamyndum og lögun trjáa sem árum saman hafa ekki færst úr stað. Ég hef lært að tala um sumarið með eftirvæntingu. Sömu eftirvæntingu sem nú fær mig til að gleyma mér í dýrðlegum öldum Líma, þráin, líkt og í ljóðum Edith Södergran, ber lit blóðsins.

Leave a Reply