Mazen Maarouf

Svenska     Dansk


Eldspýtnahundurinn

Ég bý þessa dagana í húsi í Ölpunum. Hundurinn sem gætir hússins er blindur. Hann er næstum blindur. Æxli vex úr vinstra auganu, samlitt augnlokinu. Æxlið hangir niður, eins og það sé risastórt tár, og í því má sjá slátt í æðum. Meinið hefur áhrif á bæði augun og því tilgangslaust að skera það burt. Hundurinn mun brátt glata sjóninni. Það mun gerast innan nokkurra daga. Svo er hann gamall. Hann megnar rétt að skreiðast á fætur þegar maður nálgast hann. En hann reynir. Hann reynir mikið á sig í hvert sinn. Hann nær ekki að klöngrast á fætur fyrr en eftir að maður hefur aumkað sig yfir hann, strokið honum og gengið í burtu og er við það að fara inn um útidyrnar á húsinu. Þá lítur maður í átt til hans í þann mund sem maður er að loka hurðinni, og augnaráð hans segir: „Ekki skilja mig eftir hérna,“ eða: „Taktu mig með þér inn“, eða jafnvel: „Feldu mig í herbergi þínu“. Í þessu augnaráði dylst margs konar merking. Það er ómögulegt að vera viss, eins og alltaf með augnaráð hunda. Þá meina ég hundana sem sjá skýrt, sem hoppa og gelta og leika við börn. Hér eru engin börn. Ég er yngsti leigjandinn, jafnvel enn yngri en hundurinn. Hann kemur fram við mig eins og barn. Hann slær til máttvana skottinu og þykist vera glaður með allt sem ég býð honum, jafnvel soðið epli.

Leigusalinn, Edith, er á áttræðisaldri. Hún hefur tekið eftir áhuga mínum á hundinum. Tja, uppgerðaráhuga mínum. Því ég reyni í alvöru. Ég reyni mikið í hvert sinn. Ég staldra við í nokkra stund hjá hundinum þegar ég sný aftur í húsið, en ég reyni að horfa ekki á æxlið. Ég loka augunum og óska þess jafnvel að vera sjóndapur, ekki þó af völdum æxlis á stærð við risastórt tár. Ég snerti feldinn og brosi taugaveiklislega, til öryggis. Kannski er einhver að horfa á mig, til dæmis Edith, og því þarf ég að fara varlega. Æxlið stressar mig. Mér verður flökurt, ef satt skal segja. Þegar ég kem inn í herbergið mitt fer ég strax inn á salerni til að þvo hendur mínar með olífuolíusápu sem ég kom með mér frá Túnis. Eitt sinn, meðan ég var að þvo mér um hendurnar, fékk ég kvíðakast.

Edith hefur tekið eftir því að ég er farinn að stela eplum úr lundunum sem eru nálægt húsinu. Hvern dag fer ég í trjálund og stel epli, bara einu á dag, en það tekur mig samt langan tíma þrátt fyrir að það sé mikið af eplum. Það er vegna þess að stolna eplið þarf að vera fullkomlega hnöttótt og slétt, eins og deigkúla. Ég hef íhugað þetta vandlega. Það er betra fyrir mig að leika við hundinn úr fjarlægð, til að þurfa ekki að snerta hann. Þegar hér er komið er ég enn ekki meðvitaður um það að hundurinn sé næstum blindur.

Í hvert sinn sem ég kem heim, rúlla ég epli beint til hundsins, þótt ég viti að hann geti ekki staðið upp. Fyrsta daginn tekur hann við eplinu með gleði, en hann getur ekki bitið tönnunum í það. Þess vegna fer ég að sjóða eplið handa honum á hverjum degi áður en ég rúlla því til hans. Þetta geri ég í þrjá daga. En fjórða daginn birtist Edith, sem spyr mig hvort ég hafi veitt hundinum athygli. Ég svara í gamansömum tón: „Auðvitað hef ég gert það. Heldurðu að ég sé blindur?“ Hún segir: „Ég meina, hefurðu tekið eftir því að hundurinn er blindur?“ Ég er hissa, ég fer hjá mér og reyni að brosa kurteislega. Hún segir mér að hún sé ekki að grínast, það eru aðeins nokkrir dagar þangað til að hundurinn glatar sjóninni að fullu, og að eplin hljóti að hafa hraðað því, vegna þess að í þeim séu sykur. Svo segir hún við mig: „Þú ert að ýkja áhuga þinn á hundinum. Það er engin þörf á því“. Við spjölluðum aðeins stutta stund þann daginn. Edith er austurrísk. Sú er sjálfsmyndin jafnvel þótt hún sé eingöngu með ítalskt ríkisfang. Í fyrri heimsstyrjöld tóku Ítalir yfir þennan landshluta. Hún segir: „Þú ert frá Miðausturlöndum og hlýtur að hafa orðið vitni að miklum hörmungum, svo það er hjákátlegt og ómerkilegt að horfa upp á hund deyja.“

Ég segi Edith ekki frá því að ég hafi átt hund þegar ég var barn. Hann var vel uppalinn. Mamma og pabbi keyptu sér hvolp í brúðkaupsafmælisgjöf. Ég gat sett mjóslegin handlegg minn inn í munninn hans alveg upp að olnboga og lagt þar eldspýtur án þess að hann hreyfði sig. Ég var bara barn. Meðan stríðið geysaði var mun meira til af eldspýtum en nokkru matarkyns. Undir stöðugu rifrildi mömmu og pabba byrjaði líkami hundsins að þorna upp. Augnaráð hans bjó líka yfir margvíslegri merkingu. Hann beindi því að mér meðan ég tróð fleiri eldspýtum í maga hans. Ég hélt því áfram þangað til hann glataði feldnum og öllu skinninu, og ekkert var eftir nema eldspýtnahundur. Ég gat ekki lengur fært hann stað úr stað, því ég var hræddur um að hann myndi detta í sundur. Ég hélt mig nálægt honum þar til fyrsta bílsprengjan sprakk. Þegar það gerðist datt hann í sundur af titringnum. Ég safnaði honum saman í plastkrukku og hélt á honum og henti út á haf, því að eldspýtnahundur getur ekki drukknað. Seinna komumst við að því að krukkan hafði sprungið í loft upp þegar hún rakst á tundurdufl í sjónum. Brennandi eldspýturnar þeyttust samstundis upp yfir hafflötinn og meðan þær brunnu heyrðist lágt hljóð, svipað gelti.

Edith biður mig um greiða. Hún vill að ég hjálpi henni að deyða hundinn. En við ættum að bíða nokkra daga í viðbót þangað til hann verður orðinn alveg blindur, segir hún. „Ég hefði ekki beðið þig ef sonur minn væri hérna, en hann fór til München að horfa á fótboltaleik. Hann snýr ekki aftur fyrr en eftir tvær vikur. Það er of langur tími. Veðurfarið um þessar mundir er sérlega vel til þess fallið að aflífa hundinn og lofthitinn passlegur til þess að þurrka líkama hans“. Edith vill ekki bara deyða hundinn heldur líka smyrja líkamann. Hún segir mér strangri röddu að ég eigi að stinga nál nokkrum sinnum í eplin og svo sjóða þau í sykurmettuðu vatni því þannig verða eplin dísæt og munu flýta fyrir því að hundurinn missi sjónina.

Nokkrum dögum seinna, á sömu stundu og ég renni eplinu, soðnu og karamellusætu, til hundsins, hrekk ég við þegar ég heyri rödd Edithar. Hún stendur við gluggann. Hún segir: „Engin þörf fyrir eplið. Það hefur gerst. Í morgun var hann orðinn algerlega blindur. Það er best við drepum hann eftir hádegisverðinn.“ Ég hef á tilfinningunni að Edith sé að ljúga, vegna þess að þegar ég stíg nær hundinum þá mætir mér augnaráð sem þýðir: „Ekki skilja mig eftir hérna,“ eða: „Taktu mig með þér inn“, eða jafnvel: „Feldu mig í herbergi þínu“. Það veldur mér vanlíðan. Ég vil ekki deyða hundinn, en að lokum hlýði ég konunni. Ég segi við sjálfan mig: „Það er illa gert að leyfa honum að tóra svona á sig kominn.“ Eftir hádegismat förum við þrjú í eplalund nálægt húsi Edithar. Lundinn erfði hún eftir afa sinn sem hún elskaði hlýtt. Hún lætur mig fá skammbyssu, leifar frá fyrri heimsstyrjöld. „Þú þarft að skjóta hingað, svo að kúlan fari beint í hjartað og bræði það. Við eigum bara þessa einu kúlu og við þurfum að taka hana úr brjósti hundsins eftir að við drepum hann og setja það aftur í byssuna. Þetta er sjaldgæft vopn og það verður að setja það aftur í stofuskápinn þar sem það er alltaf geymt,“ segir hún. Ég hlusta vandlega á allt sem Edith segir en þegar ég ætla að fara að fyrirmælum hennar finn ég mig knúinn til að hefja hundinn á loft með báðum höndum og hrista hann hraustlega og taugaveiklislega, í þeirri von að hann detti sundur í eldspýtur.

Ég man ekkert eftir það. Edith segir mér síðar að eftir að ég hafði lyft hundinum og hrist hann, hafi ég fengið einhvers konar taugaáfall sem olli mér blindu í heilan dag. Þrátt fyrir það heimtaði ég að drepa hundinn, en það fannst henni skrýtið. Svo Edith rétti mér skammbyssuna aftur og sá með eigin augun, segir hún, hvernig ég skaut einu kúlunni í hann og að ég hafi verið mjög nákvæmur, þrátt fyrir blinduna sem ég hafði verið sleginn. Sem raðmorðingi hunda var ég fumlaus og öruggur. Það segir Edith. Hvað sjálfan mig varðar, og ég veit að þetta er fáránlegt og ekki satt, get ég ekki annað en hugsað að blindan hafi komið yfir mig á réttum tíma, svo að ég þurfti ekki að horfa á æxlið meðan ég drap hundinn.

_______

is a writer, poet, translator and journalist. Born in Beirut to a family of Palestinian refugees, Mazen holds a bachelor degree in General Chemistry from the Lebanese University. Since 2013, he is a citizen of Iceland, and currently resides in Reykjavik. Mazen has published three collections of poetry: The Camera Doesn’t Capture Birds (2004 and 2010), Our Grief Resembles Bread (2000), and An Angel Suspended On a Clothesline (2012). He is also the author of two short story collections: Jokes for the Gunmen (2016 and 2017), which was awarded the 2016 Al-Multaqa prize for the Arabic short story, and The Rats that Licked the Karate Champion’s ears (2017).

Translation: Kári Tulinius.

One Reply to “Mazen Maarouf”

Comments are closed.